mánudagur, maí 01, 2006

Í hverri prófatíð fæ ég eitthvað á heilann. Þetta eitthvað er ávallt skólanum innilega óviðkomandi og gerir ekkert til að auka einbeitingu mína. Í ár hefur eitthvað-ið skipst í þrennt; spilaleikurinn Hearts, lagið Your Woman með hljómsveitinni White Town og svo veggirnir í íbúðinni minni.

Reglur Hearts kunni ég ekki í fyrstu og þótti mér því leikurinn alltaf hálf glataður. Svo tók ég mig til og las reglurnar gaumgæfilega... og hef síðan þá ekki getað komist í gegnum daginn án þess að spila svona 26-140 leiki. Hearts ætti að vera í flestum tölvum með Windows stýrikerfi. Farðu í start - all programs - games - hearts. Mhmm.

Lagið Your Woman er skyldueign. Sérdeilis fínt uppvöskunarlag sem hentar líka mjög vel til upplyftingar milli lestrartarna (eða Hearts-tarna). Ég myndi glöð vilja setja það hingað inn en ég kann það ekki. Áhugasamir verða bara að kaupa það í iTunes eða nálgast það eftir öðrum leiðum.

Veggirnir mínir eru síðan þriðji hluti eitthvað-sins. Mér finnst þeir svo tómlegir eitthvað, og ég get ekki hætt að pæla í því hvernig megi bæta úr því. Eini ferkantaði veggurinn í íbúðinni (ég bý undir risi) er sirka 1,7 x 2,9 og mér datt í hug að kaupa fullt af misstórum svörtum römmum og þekja vegginn með myndum af fjölskyldu, vinum og náttúru. Ætli þetta verði ekki prójekt sumarsins? Þetta og að mála rúmið mitt.

Úúú, hvernig ætti rúmið mitt að vera á litinn?

Engin ummæli: