þriðjudagur, maí 30, 2006

"Nú ætla ég ekki að drekkja blogginu í hvalaskoðunarsögum, en þessi verður að fá að fljóta með:"-2

Í morgun var ég guide fyrir þýskan milljarðamæring, 18 ára son hans og einkaflugmann þeirra. Það er fáránlegt hvað sumir eiga mikinn pening! Í alvöru, hvernig ætli það sé að þurfa ekki að hugsa um hvað hlutirnir kosta? Ritarinn hans leigði bátinn fyrir hann en það átti eftir að borga. Áður en ég renndi kortinu hans í gegn spurði ég "Var X ekki umsamin upphæð?" og fékk svarið "Ég veit það ekki, það skiptir ekki máli." X er nú samt upphæð sem skiptir flesta máli, vægast sagt.

Eins og Big og Carrie var þessi mjög vingjarnlegur. Kannski er það bara vitleysa í mér en ég bý mig alltaf undir að þurfa að díla við einhverja stæla þegar það kemur ríkt fólk um borð. Enda sagði flugmaðurinn mér að margir af hans atvinnuveitundum væru oft algerlega úr takti við raunveruleikann og sýndu mikla tilætlunarsemi (og nefndi Leonardo DiCaprio sem dæmi, gasp!). Hann sagði þó líka að sér fyndist núverandi atvinnuveitandi einstaklega ágætur maður. Hann sagði að hvenær sem vinnan leyfði þá færu feðgarnir til útlanda saman, á einkaflugvélinni, til að styrkja böndin. (Pabbi, ég vona að þú sért að lesa þetta!)

Þetta var frábær ferð, við sáum fullt af hrefnum og komu þær margar hverjar alveg upp að bátnum. Flugmaðurinn var alveg að rifna úr spenningi en feðgarnir misstu fljótt áhugann. Þegar við vorum búin að vera hjá hrefnunum í rúmar tíu mínútur fór strákurinn inn að lesa bókina Wale bei Island hautnah erleben í staðinn fyrir að skoða hvali með eigin augum. Stuttu síðar sagði pabbinn að nú gætum við snúið við, þeir væru búnir að sjá það sem þeir komu til að sjá. Þá sigldum við með þá á fiskimiðin og leyfðum þeim að veiða.

Á leiðinni í land töluðum við um framtíðarplön mín og sungum Queen lög. Við kapteinninn fengum 100 evrur í þjórfé.

Engin ummæli: