þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Ég fór í bústað um helgina ásamt fallega, góða og skemmtilega fólkinu sem ég starfa með á sumrin. Við borðuðum góðan mat, drukkum, nutum lífsins og fórum að sjálfsögðu í pottinn. Ég hafði laumast til að taka kassa af þurrís með í sveitina (því hvað er sveit án þurríss?) og þegar allir voru komnir í pottinn ákvað ég að nú væri sko rétti tíminn til að gleðja fólkið. Ég teygði mig því í kassann, vippaði lokinu af og sturtaði kílói af -79 gráðu kaldri kolsýru út í 40 stiga heitt vatn. Afleiðingarnar voru geigvænlegar!

Ég bjóst við að þetta yrði voða rómó og kósí, kannski smá bubbl og falleg gufa... en nósörríbobb: All hell broke loose!

Samstundis og þurrísinn fór ofan í vatnið varð gufan svo mikil að ég sá ekki í næsta mann, þó svo að við vorum mjög mörg og sátum þétt. Ísmolarnir lágu ekki kyrrir í yfirborðinu eins og ég hafði búist við, heldur þutu út um allt eins og litlar rakettur. Og hljóðið maður! Vatnið kraumaði eins og 1000 djúpsteikingarpottar og fólkið öskraði af sársauka.

Ísmolarnir fóru út um allt, enginn sá neitt og enginn gat forðað sér. Molarnir voru svo kaldir að þeir brenndu nakið holdið um leið og þeir komust í pínu snertingu við það. Öll urðum við hysterísk og hófum að ýta vatni og þurrís frá okkur inn að miðju (og þar af leiðandi yfir á manninn á móti). Sessunautar mínir öskruðu á mig og gerðu ámótlega tilraun til að standa á fætur til að hlífa viðkvæmum rasskinnum við þeim molum sem sukku. Ég gat ekki hætt að hlæja, afleiðingar gjörða minna komu mér svo á óvart! Ástandið í pottinum var fáránlegt!

Þegar hlutirnir fóru aðeins að róast og fólk fór að sjá handa sinna skil veitti ég því eftirtekt að ég fann fyrir svíðandi sársauka í vinstra brjóstinu. Ég veinaði og stakk höndinni inn á mig til þess að koma þurrísnum út en ýtti honum í staðinn lengra inn í holdið. Eftir mikið fálm, puð og tryllingslegan hlátur tókst mér að loks að losa molann. Þegar betur var að gáð sást að farið eftir þurrísinn var stórt, ferkantað, rautt og upphleypt. Sviðinn í brjóstinu var áþreifanlegur.

Eins og við mátti búast fékk ég ekki mikla meðaumkun.

Engin ummæli: