mánudagur, apríl 02, 2007

- Fyrsti apríl -

Gegnum tíðina hef ég skapað mér nokkurs konar hefð þegar kemur að þessum degi. Iðulega rennur hann upp án þess að ég geri mér grein fyrir því og ég er þar af leiðandi frekar græskulaus fram að hádegi. Þetta veit nánasta fjölskylda mín og nýtir sér óspart.

Pabbi hringdi rétt fyrir tíu í gær. "Sæl elskan! Heyrðu, við mamma þín erum hérna niðri... að koma með stóran og eh.. þungan stól til ömmu þinnar. Heldurðu að þú stökkvir ekki niður og opnir fyrir okkur?"

Ég var tiltölulega nývöknuð og lá enn uppi í rúmi undir hlýrri sæng. "Jú, ég kem að vörmu!" sagði ég, skellti á hann og hentist í fötin. Svo hljóp ég niður stigann (tvær hæðir) og opnaði útidyrahurðina. Þar stóð ég og skimaði eftir bílnum í dágóða stund þar til það rann upp fyrir mér hvaða dagur væri.

Lufsaðist aftur upp og hringdi hlæjandi í pabba. The call of shame eins og það er kallað.

Samkvæmt hefðinni var ég bitur fram eftir degi og átti erfitt með að einbeita mér að öðru en að ná fram hefndum. Þar sem pabbi, mamma og Óttar voru greinilega skrefi á undan mér þá vissi ég að til að jafna út apríl-karmað yrði ég að beina sjónum mínum annað.

Um kvöldið hringdi ég í Önund. Hann var að horfa á fréttirnar, en stóð upp úr sófanum þegar ég bað hann fara afsíðis svo Una myndi ekki heyra. "Hey, ég er hérna fyrir utan í bíl með afmælisgjöf handa Unu. Þetta er frekar þungur pakki.. værirðu nokkuð til í að koma að hjálpa mér að bera?"

Ljúfmenninu þótti það nú ekki nema sjálfsagt og ég heyrði hvernig hann gekk niður stigann og fram í anddyri. Meðan á þessu stóð þurfti ég að halda símanum frá mér, ég flissaði svo mikið. Hann hlýtur að hafa heyrt í mér því áður en hann opnaði útidyrahurðina rann upp fyrir honum ljós: "Jááá-ááeh, það er fyrsti apríl!"

Ég hló í svona tvo tíma.

Ómar kom síðan með kvöldmat (ég veit, alveg til fyrirmyndar) og meðan við lágum á meltunni ákváðum við að reyna að gabba pabba hans. Ómar hringdi í mömmu sína og bað hana sjá til þess að Pétur myndi svara næst þegar heimasíminn hringdi. Hún Hólmfríður er sjálf svo mikill aprílgabbari að það þurfti ekki mikið til að sannfæra hana um að taka þátt. Eftir að mér tókst að hemja hláturinn sem bubblaði í maganum mínum hringdi ég heim til Ómars.

"Já."
"Hæ Pétur [Úbb, mistök. Þetta hefði eins getað verið Ómar eða Pétur Freyr], Ásdís hérna. Takk fyrir síðast!"
"Já sæl vertu!"
"Hæjj.. hérna.. ég hringdi í Ómar en hann var uppi á spítala.. ég var að spá sko.. ég er búin að týna úrinu mínu, en ég man að ég var með það heima hjá ykkur síðasta föstudag [mér var boðið í Hólmfríðar-pizzu og X-factor. Eðall] ..Uu, og ég tók það af mér þegar við vorum að horfa á sjónvarpið. Hérna, eh, getur verið að það liggi undir stólnum?"
"Undir stólnum í sjónvarpsherberginu?"
"Já.."
"Tja, ég var nú að ryksuga þar um daginn [góðuuur!] og varð ekki var við neitt. Bíddu.."
(Hann gengur inn í sjónvarpsherbergi og kíkir undur stólinn)
"Neeei, það er ekki hér."
"Ekki undir sófaborðinu heldur?"
(Meðan hann leitaði undir sófaborðinu heyrði ég í Hólmfríði fyrir aftan: "Hver er þetta?" "Ásdís" sagði Pétur, "hún er að leita að úrinu sínu." Þá heyrðist í Hólmfríði: "Æ! Er það silfur- eða gullúr?" Hahaha, snillingur!)
[Þarna hnippti Ómar í mig og sagði mér að biðja Pétur fara inn til hans]
"Hmm, þetta er skrýtið.. værirðu nokkuð til í að kíkja inn til Ómars fyrir mig? Úrið gæti verið á skrifborðinu..."
(Pétur fer úr sjónvarpsherberginu og inn til Ómars)
"Nei því miður Ásdís, ég sé ekkert úr hérna.."
(Hann heldur áfram að leita)
[Ómar hnippir aftur í mig: "Segðu honum að líta á dagatalið!"]
"Pétur.. sérðu dagatalið þarna?"
"Já..."
"Hvaða dagur er í dag?"
(Þögn)
"Nei!! Fyrsti apríl?!"
[Ég heyrði ekki hvað hann sagði eftir þetta því hlátursgusan sem kom frá Hólmfríði kæfði allt, hahaha]
Svo sagði hann: "Ásdís! Þú ert nú meiri appelsínan!!!"
Ég veit ekki sko.. það má vel vera að fólki finnist ég barnalegur kjáni fyrir að hafa svona gaman af eigin aprílgöbbum, og það jaðrar nú við að mér finnist það sjálfri - en þegar pabbi vinar þíns kallar þig appelsínu þá veistu að þetta hafi verið þess virði.

Engin ummæli: