föstudagur, febrúar 15, 2008

Ég minnist þess að hafa í upphafi búskapar míns hér á Hagamelnum bloggað um svokallaða "hvað er til í ísskápnum?" eldamennsku. Hún felst í því að latur einbúi nennir ekki út í búð að kaupa í matinn, heldur opnar í staðinn alla skápa eldhússins (hverra innihald er fátæklegt að venju) og tínir til efni í sörpræs-rétt. Þetta getur verið varhugavert.

Fyrsta sinn sem ég reyndi þetta var útkoman hræðileg, vægast sagt. Pönnusteiktur núðluréttur með tómatbitum, pepperóníosti, jöklasalati (já, það fór á pönnuna!) og ristuðum furuhnetum. Já, í alvöru.

Síðan þá hef ég tekið miklum framförum í þessari exquisite culinary list og kem sjálfri mér skemmtilega á óvart í hvert sinn sem ég leyfi hugmyndafluginu að njóta sín. Í kvöld var ástand ísskápsins afar bágborið og Melabúðin allt of langt í burtu (!), svo ég snaraði fram einfaldasta sörpræs-réttinum til þessa. Ég læt uppskrift fylgja fyrir áhugasama listakokka:

Hvað er til? Nokkrar brauðsneiðar, kotasæla, hálf gúrka, túnfiskdós, sardínur í tómatsósu, útrunnið skyr og 1/4 af brúngrænum kálhaus.
Aðferð: Káli og skyri hent í ruslið og vöngum velt yfir því hvenær sardínurnar voru keyptar (þær voru innst í búrskúffunni, vel faldar undir kassa af tei). Túnfiskur settur í skál og niðurskorinni gúrku bætt við. Dágóð slumma af kotasælu látin fylgja. Öllu hrært saman. Brauðsneiðar settar í ristavél og voilá: Gourmet túnfisksalat á glóðuðu brauðbeði.
Sannkallað kóngafæði, njótið vel.

Engin ummæli: