sunnudagur, janúar 13, 2008

Forsíða Morgunblaðsins í dag er mjög Séð og heyrt-leg, þykir mér. Stærsta fréttin er sú að Hulda Björnsdóttir er flutt til Kína og kennir þar ensku og dans. Hver er Hulda Björnsdóttir eiginlega, er það eitthvað sem maður á að vita? Var hún þekkt andlit á árunum 1984 - 1995? Ef svo er þá get ég kennt Danmerkurdvölinni um fávisku mína, eins og ég geri gjarnan til að bjarga andlitinu.

Þau hljóta að hafa ruglast í ríminu bara, fólkið í Hádegismóum. Þessi grein hlýtur að hafa átt að vera einhvers staðar á öftustu blaðsíðunum ásamt hinu fluffinu, ekki á miðri forsíðunni. Eftir því sem ég les textann oftar því fyndnara finnst mér þetta.


Kennir ensku og líka dans

Eftir 62 ár á Íslandi er Hulda Björnsdóttir flutt til hafnarborgarinnar Fuzhou í Kína þar sem hún hyggst búa til framtíðar og hafa lifibrauð af því að kenna ensku og dans.
Í samtali við Freystein Jóhannsson segir Hulda að eftir að hún horfði upp á móður sína verða aldraða á Íslandi hafi hún verið ákveðin í því að finna það ekki á eigin skrokki.
Sérstæð reynsla í kínverskudeild British Museum í London og skemmtilegt ferðalag til Kína beindu sjónum Huldu að Kína til frambúðar og þar á suðausturströndinni fann hún fyrirheitna landið í hafnarborginni Fuzhou.
Þar byggði hún sér hús og meðan það var í smíðum varð Hulda sér úti um réttindi til að kenna ensku og rifjaði upp dansinn, en hún kenndi dans í Reykjavík um árabil.
Nú er Hulda komin til Fuzhou. Þaðan sendi hún á föstudagsmorguninn tölvubréf: Komin heim.

Engin ummæli: