laugardagur, janúar 26, 2008

Ég viðurkenni það að ég fylgist með Hollywood slúðrinu. Mamma mín og aðrir skynsamir myndu líklega segja að ég eyði of miklum tíma í slíka froðu, en eitthvað verður maður nú að gera til að fylla upp í pásurnar milli lærdómstarna.

Undanfarið hef ég fylgst með hrakfarir Britney Spears, enda varla annað hægt. Þetta er eins og þegar maður keyrir fram hjá bílslysi og hægir á sér til að skoða í staðinn fyrir að einbeita sér að umferðinni og veginum framundan. Líf hennar virðist verða ömurlegra í hvert sinn sem ég les nýja frétt. Síðasta lægðin var þegar hún læsti sig inni, neitaði að afhenda börnin sín og var að lokum bundin á sjúkrabörur og flutt á spítala. Dagana eftir veltu slúðurritarar sér uppúr þessu og spekúleruðu mikið í því hvað í fjandanum væri að henni. Er hún með bipolar disorder (eins og Stephen Fry, það kallast geðhvarfasýki eða tvískautaröskun á íslensku) eða þjáist hún kannski af fæðingaþunglyndi? Þetta birtu þeir án þess að hika: bipolar eða fæðingaþunglyndi - bommsarabomms, veljið.

Svo hefur Britney greyið verið að rúnta um bæinn undanfarið og eitthvað heyrðist mönnum, þ.e. paparazzi ljósmyndurunum sem elta hana eins og skugginn, að hún væri að tala með breskum hreim við menn og dýr. Þessu var slegið upp í stórfrétt og sumir veltu fyrir sér hvort hún væri með schizophreníu (geðklofasýki). Bommsarabomms!

Ég býst við að menn slengdu fram þessari greiningu útaf hreimnum breska og drógu þá ályktun að hún hlyti að vera með mismunandi persónuleika, einn poppstjörnu, einn breskan og svo kannski (vonandi!) einhverja í viðbót. Slík röskun kallast bara alls ekki schizophrenia. Sjúklingar sem eru með marga persónuleika þjást af því sem kallast
dissociative identity disorder (DID), áður þekkt sem multiple personality disorder (MPD). Þá eru aðskildir persónuleikar í einni og sömu manneskju og hver persónuleiki hegðar sér ólíkt hinum, hreyfir útlimi og andlit á sinn hátt, er með sín viðhorf og talar með sinni röddu. Persónuleikarnir geta verið á mismunandi aldri og af mismunandi kyni. Stundum vita þeir af hvorum öðrum, stundum ekki. Einn þeirra getur verið heimsfræg poppstjarna og annar bresk skólastúlka.

Mér finnst asnalegt að slúðurbloggarar og slúðurfréttamenn séu að spekúlera í geðheilbrigði fólks, en þetta eru kannski svona "comes with the territory"-pælingar. Eða eitthvað. Verra finnst mér, og hreinlega óverjandi, þegar sálfræðingar eru farnir að taka þátt í leiknum með þeim. Núna eru farnar að birtast slúðurfréttir þar sem einhverjir L.A. sálar eru farnir að greina hegðun Britney og flokka. "Jú, hegðun hennar bendir til að hún gæti þjást af tvískautaröskun/fæðingaþunglyndi/DID (þeir minnast ekki á að hún sé schizo, sem betur fer) og ji hvað það er erfitt að horfa upp á þetta, hún verður að fara að leita sér hjálpar!"

Ef viðkomandi er ekki sjúklingur í þinni umsjá, ef þú hefur ekki talað við manneskjuna undir fjögur augu, ekki lagt fyrir hana staðlaðar spurningar og það eina sem þú ert með í höndunum eru paparazzi-ljósmyndir og -upptökur sem hafa náðst á tilviljanakenndum tíma... hvernig geturðu greint hegðunina með ábyrgum hætti? Mér finnst verulega óábyrgt af sálfræðimenntuðu fólki að láta hafa eftir sér einhverjar plastgreiningar í fjölmiðlum. Hver er bættari af því?

Engin ummæli: