föstudagur, apríl 16, 2004

Í hádegishléinu í dag heyrði ég Toxic-hringitón Rutar. Það hefur verið mér fullkomlega ómögulegt að losna við hljóm viðlagsins úr höfði mínu síðan þá. Held að ég hafi orðið fyrir Britney-bölvun. Hinn hraði taktur og háu seiðandi tónar.. Hví gerirðu mér þetta Britney?

Talandi um eitthvað annað. Þegar ég las forsíðufrétt Moggans í dag gat ég ekki hætt að ímynda mér Davíð Oddsson sem lítinn hvolp með dillandi rófu við hlið húsbónda síns Mr. Bush. "Hann hringdi bara óumbeðin og talaði við mig í átta eða tíu mínútur, eða eitthvað!". Reyndar býst ég við að ég yrði líka frekar spennt ef forseti Bandaríkjanna myndi slá á þráðinn til mín. En ég myndi reyna að halda kúlinu aðeins betur. Allavega reyna.
Það er samt frekar augljóst að George er kominn á fullt í kosningabaráttunni. Gruna hann um að vera að veiða atkvæði bandarískra gyðinga með hinni hörmulegu stefnubreytingu sinni í málefnum Palestínumanna.

Jæja, ég er með stíflaðan tárakirtil hægra megin, og þarf að fara að horfa á e-ð sorglegt í sjónvarpinu til að losa um. Segið svo að líf fólks rétt fyrir stúdentspróf sé ekki spennandi?!

Engin ummæli: