fimmtudagur, apríl 22, 2004

Hversu vel er hægt að skemmta sér í hafnaboltabúning? Svar: Mjöhöhöhög VEL!!!

Dimissiodagurinn hófst klukkan 06.20 þegar lagt var af stað í morgunpartý hjá Hrefnu. Mamma hennar bar á borð dýrindis brauðrétti, appelsínusafa og gúmmelaði. Harpa átti afmæli (til hammara með ammara) og kom með kökur. Klukkan átta tíu var svo mæting í stofu A. Síðasti líffræðitíminn... síðasti tíminn! Við Harpa komum "viljandi" of seint og sögðum hina klassísku setningu afsakið hvað ég kem seint í seinasta skipti. Það var gaman.
Eftir góða og súrefnislausa athöfn á sal stormaði sjötti bekkur Menntaskólans út á tún. Sovéskt verkafólk, sjóræningjar, hafnaboltalið, sirkúsfólk, Braveheart-skotar, bio-hazard teymi og Uma "Kill Bil" Thurmannar. Frábærir búningar í alla staði. Eftir að allir höfðu kvatt kennarana og sprellað á grasinu var öllum smalað upp í gámabíla. Frekar skrýtin tilfinning að standa loksins í gámnum er ekið var af stað, en ekki á grasinu. Eftir að hafa veifað Davíð Oddssyni og öðrum Reykvíkingum var stefnan tekin á Pizza Hut á Sprengisandi þar sem pizza var etin með bestu lyst. Eftir þetta rölti rjómi Emmsins upp í keiluhöllina í Öskjuhlíð, en tekin var örstutt klósett- og skókaupspása í Kringlunni. Hrokafull og sigurviss reyndi ég að koma af stað stigakeppni milli brauta með bjórverðlaun fyrir stigahæsta liðið. Sem betur fer var slælega tekið í þá uppástungu, enda gerði ég liði mínu lítið gagn með þeim sorglegu 63 stigum sem ég rakaði saman. Eftir keiluna lá leiðin niður í bæ þar sem keyptur var ís á Ingólfstorgi og spilaður hafnabolti í blíðskaparveðri á Austurvelli. Sól og blár himinn. Mikil lifandis skelfingar ósköp vorum við heppin með veður!! Þetta hefði ekki geta verið betra. Takk, kæru veðurfræðingar.
Um kvöldið var bekkjarpartý hjá Tóta.is, þar sem síðasta grasgrænan var fengin í hvítu buxurnar með miklum tilþrifum. Tónlist var spiluð og áfengi drukkið. Súperpartý. Að lokum lá leiðin á Felix þar sem búningaklæddir Menntskælingjar dönsuðu af sér afturendann við err og bé og píkupopp fram á rauða nótt.
Brilljant dagur!

Engin ummæli: