fimmtudagur, júlí 29, 2004

Eftir margra vikna hægagang er loks komin skrið á íbúðarmál mín. Undanfarnar vikur hef ég (og yndislegu aðstoðarmenn mínir) staðið í ströngu við að bæsa tæplega sjötíu fermetra panelloft. Aðgát skal höfð þegar panelloft er bæsað. Sérlega skal þess gætt að bæsa ekki fleiri en einn panel í einu, fylgja plankanum eftir, frá gólfi upp í rjáfur, og gæta þess afar vel að beita penslinum rétt. Langar hægar strokur.. ekki stuttar og hroðvirknislegar, nei takk! 
Allavega, bæsun panelloftsins tók drjúgan tíma en er nú loks lokið. Íbúðin var síðan máluð á einu kvöldi.. eða nei, einu og hálfu.. og nú fer að styttast í fjörið - flutninginn sjálfan. Reyndar er eitt ogguponkulítið verk eftir.. Íbúðina þarf að parketleggja. Plastparketleggja. Plastparketið sem ég hafði litið hýrum augum tók upp á því að hverfa úr Byko. Kvaðst vera uppselt. Leitað var á náðir Húsasmiðjunnar og þar fundum við afar álitlegt parket sem heitir Hlynur. Skemmtilegt, nú á ég bæði hest og parket að nafninu Hlynur. Svona er heimurinn lítill.
Einnig er búið að vera mikið ævintýri að redda ísskáp. Smáauglýsingavefir hafa verið nýttir til hins ýtrasta og blöðin skönnuð reglulega, en ekkert heppilegt hefur fundist. Ég er að leita mér að litlum ísskáp (borðhæð) með innbyggðu frystihólfi, og vil gjarnan sleppa sem billegast frá þessu.. en hef samt engan áhuga á illa förnum skápum með fúlri lykt.
Svo datt ég heldur betur í lukkupottinn, því inn um bréfaluguna læddist Elko-bæklingur fyrir skömmu. Þar blasti við mér fallegur Whirlpool ísskápur með innbyggðu frystihólfi.. í borðhæð! Gripurinn var auglýstur á nítján og níu.. og þótti mér hann afar álitlegur. Í gær rúllaði ég síðan niðureftir - til þess eins að frétta að litli, fullkomni skápurinn var uppseldur. Uppseldur? Hvers á ég að gjalda? Fyrst parketið og síðan ísskápurinn? Voru þetta samráð parketsala og ísskápssala (hehe, þjált orð - ekki!) ...En hjúkket sjúkket, Elko er með svonefnda 3gja daga auglýsingavernd. Sumsé, ef þeir auglýsa vöru sem reynist síðan uppseld innan þriggja daga frá útburðardegi Elko blaðsins, þá fær maður samt vöruna á auglýstu verði. Þannig að ég keypti mér ísskáp í gær og fæ hann eftir þrjár vikur.. á nítján og níu. Vó, talandi um að vaxa úr grasi.. ég á ísskáp!
Þetta er búin að vera skemmtileg færsla.
Prakkarastrik vikunnar mun svo verða framkvæmt í kvöld. Ég ætla að mála hefðbundinn hvítan baðherbergisskáp, sem ég á ekki, öskrandi lime-grænan. Svo ætla ég að skrúfa lítinn málmkall á skápinn og nota sem höldu. Þetta verður ýkt költaður flippskápur.
Úff.. get ekki beðið!

Engin ummæli: