mánudagur, september 13, 2004

Eitthvað er fólk nú farið að bösta boltana mína útaf bloggleysi. (Bwahaha.. bösta boltana mína - fattaði þennan alveg sjálf og flissaði upphátt inná Þjóbó). En mér til varnar þá... þá.. er ég ekki með netsamband heima hjá mér og get því ekki bloggað hvenær sem andinn kemur yfir mig. Þegar ég þarf að fara á netið, þá þarf ég fyrst að klæða mig í skó og úlpu og fara með tölvuna mína í heimsókn á Þjóðarbókhlöðuna eða annað húsnæði Háskólans. (Vitaskuld er ég þá ekki nakin undir úlpunni.. gefum okkur að ég hafi verið fullklædd áður en ég fór í yfirhöfnina). Þetta er heljarinnar verk, og því má með réttu segja að hver bloggfærsla hjá mér hafi ígildi þriggja færslna hjá öðrum. Ég er því með virkari bloggurum landsins - og hananú!
Annars er allt í góðu geimi á Hagamelnum. Keypti mér tvær plöntur í gær svo ég yrði ekki eina lífveran í íbúðinni öllu lengur. Ein plantan heitir Kaktus en hin heitir Aloe Vera. Báðar eru þetta mjög sjálfbjarga plöntur, en af fenginni reynslu ákvað ég að fá mér ekki erfiðar high-maintainence plöntur. Þær eiga það til að deyja ef maður hugsar ekki um þær. Reyndar hefur mér nú tekist að drepa kaktus.. en nú ætla ég að passa mig betur. Spennandi tímar framundan!
Eitt af því sem breyttist þegar ég flutti að heiman er sjónvarpsáhorf mitt. Nú hef ég ekki lengur aðgang að Ztöð 2 né Skjá einum. Fyrri vegna kostnaðar en seinni vegna þess að Hótel Saga skyggir á mig. Stöð 1 er því eina stöðin sem fær að njóta góðs af mér í áhorfskönnunum. Ég er því búin að njóta góðs af dvd-eign vina og vandamanna. Mamma spurði svo í gær hvort það væri ekki leiðinlegt að horfa á bíómyndir af litlum tölvuskjá... Nei mamma!! Tölvuskjárinn er stærri en sjónvarpsskjárinn!!
(Aaah.. bösta boltana mína.. þetta er enn fyndið! Fólk er farið að gefa mér ill augu!)

Engin ummæli: