föstudagur, desember 03, 2004

Þegar ómögulegt er að sofna er besta ráðið eftirfarandi: Æfðu þig í að standa í brú og kveiktu síðan á Ómega.
Ekki nóg með að uppsetning og flæði þáttarins sé svo grimmilega illa útfært að manni finnst rangt og illa gert af manni að vera ekki að nýta tímann í svefn.. heldur eru efnistök þáttastjórnanna einnig svo umdeilanleg að maður nælir sér í umræðuefni næstu tíu bloggfærslna á sjö mínútum!
Svo ég vitni nú í gestastjórnandann: "..svo er það bara þannig að það að taka þátt í starfi Ómega er einhvers konar fjárhagsleg blessun!"
Bíddu hægur félagi, hvenær var sá samningur borinn undir Guð? Ef maður lætur fé af hendi rakna til stuðnings Ómega.. eru fjármálin þá gulltryggð það sem eftir er?
Mér finnst afar vafasamt að halda svona löguðu fram. Sérstaklega þar sem ég trúi mörgum til að gleypa við þessu. Mörgum hverjum sem hafa ekkert efni á neinum auka sjónarpsstöðvastyrkingum. Hafa ekki allir heyrt sögur af öryrkjum og öðrum bágstöddum sem tóku lán og settu sig á hausinn til að styrkja útþenslustefnu Ómega? Ég hef samt engar sannanir fyrir þessum sögum, og hlýt því að leyfa sjónvarpsstöðinni að njóta vafans.. en sorglegt er ef satt er.
Eftir að rætt hafði verið um þessa fjárhagsblessun í dágóðan tíma fylgdi fyrirtaks landafræðikennsla af hendi (og bendipriki) þáttastjórnanda. Hann las upp bréf sem stöðinni hafði borist, hvaðanæva að úr heiminum, og benti svo á heimaland bréfaskrifara á korti fyrir aftan sig. "Já sjáiði, fólk er horfa á stöðina í Noregi.. sjáið.. uh, hérna! Hann er að hrósa boðskap stöðvarinnar. Takk, jááh.. og sjáið.. nú vel ég bréf alveg af handahófi.. og já.. það er frá Egyptalandi. Hann er að biðja um að við biðjum fyrir fjölskyldu hans og fjárhag.. sjáið, Egyptaland er... hééérna!"
Þegar ég hafði fræðst um staðsetningu Svíþjóðar, Bretlands og Kýpur gat ég loks farið að sofa.

Engin ummæli: