miðvikudagur, desember 29, 2004

Nú hef ég aldrei átt kærasta í desember, og hef því einungis tekið þátt í vandræðunum sem því fylgir sem áhorfandi. Umvafin hamingjusömum pörum hafa síðastliðnar vikur verið spennandi fyrir mig. Erfiðar spurningar brenndu á vörum vina minna - Hvar á ég að vera? Hvernig verður aðfangadagskvöldið? Eigum við að vera saman eða í sitthvoru lagi? Hjá hvaða fjölskyldu? Ha, afhverju endilega þinni?
Ég skil mjög vel að fólk sé ekki tilbúið til að vera hjá "hinni" fjölskyldunni aðfangadagskvöld. Það þyrfti allavega ansi góð rök og jötunsterkan sannfæringakraft til að fá mig til að skipta um fjölskyldu og umhverfi 24. desember. Ég eeeeelska aðfangadag og hefðirnar sem hafa skapast í minni fjölskyldu, hvers vegna ætti ég að vilja halda jól með einhverri annarri fjölskyldu?
Kertasníkir er augljóslega farinn að hafa áhyggjur af einfaldleika jólanna hjá mér, og gaf mér bókina Superflirt í skóinn. Sjáum til hvar ég mun fagna jólunum að ári.

Engin ummæli: