mánudagur, mars 14, 2005

Nú fyrst er ég farin að skilja afhverju frændi minn, sem bjó í risinu á undan mér, sagðist vorkenna mér að hafa engan til að hlýja mér á vindasömum nóttum. Íbúðin er ekki vindþétt! Flísteppi, rúmteppi, sæng. Göngusokkar, lopasokkar, föðurland. Síðerma og stuttermabolur. Griflur. Ég hef ekki verið svona vel dúðuð fyrir svefninn síðan ég gisti í tjaldi uppi á Arnarvatnsheiði.
Í staðinn fyrir að vera á bömmer yfir að sofa ein í óþéttu risi ímyndaði ég mér að ég væri Jónas Hallgrímsson, hímandi á hanabjálka í København. Mjög svo rómantískt.

H - Hnúfubak sá ég í fyrsta sinn síðasta sumar. Ég vann hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Eldingu og fór stundum með í ferðirnar. Hvalurinn hafði verið að sniglast kringum bátinn lengi vel, kom frekar nálægt og lyfti bægslunum ótt og títt. Svo var hann búinn að vera lengi í kafi og við héldum að hann væri farinn - en þá allt í einu stökk hann upp í loftið, 20 m frá bátnum, og bæði áhöfnin og allir túristarnir tóku þvílík andköf. Gamli Þjóðverjinn sem stóð við hliðina á mér fór að gráta.

Engin ummæli: