miðvikudagur, apríl 27, 2005

Aftan á Cheerios pökkunum er hringlaga yfirlit yfir afrek Íslendinga á sviði íþrótta. Fyrir ofan hringinn stendur að "í gegnum tíðina hafa Íslendingar tekið upp á ýmsu til að sýna fram á hreysti þjóðarinnar, bæta afrek hennar og huga almennt að heilsu og vellíðan. Af nógu er að taka og þegar litið er um öxl rifjast margt skemmtilegt upp." Sex ártöl eru nefnd og fylgir þeim öllum stuttur texti og skopmynd.
Fyrsta ártalið er 1947 og fjallað er um knattspyrnumanninn Albert Guðmundsson, sem var fyrstur Íslendinga til að gerast atvinnumaður á erlenda grundu. Næst er fjallað um "einn glæsilegasta dag íslenskrar íþróttasögu", 29. júní 1951. Þá unnum við Svía í fótbolta og Dani og Norðmenn í frjálsum. Kappar eins og Gunnar Huseby, Clausenbræður og Torfi Bryngeirsson eru nefndir í því samhengi. 1985 gekk Reynir Pétur Ingvarsson hringinn í kringum landið og safnaði í leiðinni áheitum fyrir nýtt íþróttahús á Sólheimum í Grímsnesi. Árið 1989 vann handboltalandsliðið heimsmeistaramót B-liða undir stjórn Bogdans Kowalczyk og árið 1996 er Gaui litli og hans offitustríð í brennideplinum.
Lokaártal afreksupptalningarhringsins er svo árið 2000. Sýnd er skopmynd af konu með mikið fjólubleikt hár, afar einbeitt á svip að hamast á þrekhjóli. Talað er um aldamótaæðið:

Líkamsræktarstöðvar landsins fylltust enn á ný í kringum aldamótin. Landinn vildi jú taka á móti nýrri öld í sínu besta formi og spriklaði, sparkaði, hjólaði og boxaði í tímum sem nefndust alls kyns framandi nöfnum. Margir uppgötvuðu kosti heilbrigðari lífsstíls í fyrsta sinn og gerðust áskrifendur að reglulegri hreyfingu á nýrri öld!
Sei sei já.. Eina konan sem fær að vera með á hringnum er fjólubleik aldamótaæðiskona. Er það bara ég, eða var árið 2000 ekki árið sem Vala Flosadóttir lenti í 3. sæti í stangarstökki á Ólympíuleikunum? Afhverju telst það ekki nógu merkilegt til að fá að vera með?

Engin ummæli: