mánudagur, nóvember 21, 2005

Fimmti hluti ferðasögunnar. New York, part V

Mánudagurinn rann upp, bjartur og fagur. Við fengum okkur morgunmat á Starbucks, að mig minnir, og tókum lestina dántán. Það var komið að þyrluferðinni og allir ætluðu með, lofthrædda fólkið líka.

Liberty Helicopters er með tvo þyrlupalla á Manhattan og einn í Jersey. Við fórum á VIP pallinn. Að sjálfsögðu. Sá er staðsettur á mótum 12. breiðstrætis og 30. strætis, á bakka Hudson árinnar.

Namm. Hér eru rassar ferðafélaga minna á horni þrítugast´oþriðja´otólfta.


Eftir að hafa skráð nöfn okkar og þyngd, borgað ferðina og læst töskuskápnum fengum við okkur sæti í biðsalnum. Þar horfðum við á spjallþátt með gömlum konum og við Magga hneyksluðumst á manninum sem var sífellt að stara á brjóstin okkar. Við héldum okkur þó við íslenskuna, svo hann lærði engar mikilvægar lexíur.

Eftir stutta bið vorum við kölluð upp í kallkerfinu, "The Maack Party" (við vorum ekki að reyna að vera sniðug í þetta skiptið, þetta skrifast alfarið á konuna í innrituninni), og fórum gegnum málmleitarhlið inn í næsta biðsal. Þar horfðu allir á öryggismyndband, nema brjóstakallinn sem horfði á brjóst okkar Möggu og rass grunlausrar konu sem stóð fyrir framan hann.


Þyrluferðin var æðisleg! Við flugum niður eftir Hudson ánni, yfir bæði Ellis Island og frelsisstyttuna.


Við vorum öll með ýkt töff head-set og heyrðum allt sem helikopterkörlunum fór á milli. Þeim leiddist ekki í vinnunni, reyttu af sér bröndurum og kúl one-liners.

Brosi bros. Hér sést svo viðskiptahverfi Manhattan.

Og Ground Zero.

Þyrluferðin var mögnuð upplifun og hvet ég eindregið tilvonandi Nwe Yrok-fara til að skoða heimasíðu Liberty Helicopters í þaula.

Svo sundurliðaðist hópurinn kynjaskipt, við Magga fórum að versla og Egill og Konni fóru að heimsækja Guðrúnu Höllu, Kólumbíu-háskólanema. Af verslunarferðinni er ekki mikið að segja. Við borðuðum þó hádegismat á ofsalega kósý kaffihúsi sem var innréttað í antík stíl. Mig minnir að það heiti Antique Garage. Þar var allt antík og síðar, þegar við lásum um staðinn í Zagat´s, komumst við að því að allir innanstokksmunirnir, borðbúnaður inklúderaður, eru til sölu. Baðherbergið var eitt það fallegasta sem ég hef séð.

Þjónninn okkar, sætur dökkhærður piltur, spurði hvaðan við værum og brosti breitt þegar við sögðumst vera íslenskar. "I know one Icelandic guy, his name is Einar." Við Magga fórum að hlæja og spurðum, meira í gríni en alvöru, hvort það væri nokkuð hann Einar Oddsson? Þjónakrúttið fór þá líka að hlæja og í ljós kom að hann og Einar Oddson voru skólafélagar og í sama fótboltaliðinu að mig minnir. Við skrifuðum orðsendingu til Einars og báðum þjóninn um að koma henni til hans. Við kvittuðum undir miðann sem "Ásdís Eir & Magga Maack, ´84 módel úr MR" en ég veit samt ekki hvort Einar muni eftir okkur. Vonandi, því þetta var skemmtileg tilviljun.

Um kvöldið ætluðum við út að borða á Salaam Bombay og höfðum mælt okkur mót við strákana hjá Ground Zero. Þegar við Magga stigum upp úr söbbinu vorum við pínu áttavilltar svo ég spurði jakkafatamann (sem var alveg eins og klipptur út úr bíómynd sem fjallar um átakanlegar sviptingar á verðbréfamarkaðinum, go figure!) í hvaða átt Ground Zero væri. Augnaráðið sem ég fékk er ógleymanlegt! Hann var yfir sig hneykslaður á áhuga mínum og spurði okkur, með andúðartón, hvort við vildum virkilega fara þangað. Svo sýndi hann okkur réttu leiðina og snéri í okkur baki. Ég veit ekki hvort hann hafði misst ástvin í árásinni og þess vegna fundist óhugsandi að túristar færu þangað til að skoða sárið, eða hvort ástæðan var einhver önnur. Viðbrögð hans komu mér allavega verulega á óvart.


Maturinn á indverska staðnum var algert nammi.

Svo fórum við Egill og Magga í langferð í leit að lífi. Fórum fyrst á rokkarastaðinn Lit. Sá var því miður frekar tómur (enda var þetta snemma á mánudagskvöldi) en við settumst niður og skemmtum okkur konunglega við að fylgjast með þeim sem voru mættir. Skortur á strákum í þröngum rokkarabuxum varð þess þó valdandi að við yfirgáfum staðinn eftir fyrsta bjór og héldum för okkar áfram.

Við röltum um Lower East Side og fundum staðinn Piano´s. Eftir að hafa rökrætt við barþjóninn um gæði bandarískra bjórtegunda (og keypt af honum belgíska Stellu) römbuðum við óvart upp á efri hæðina, og er það mín skoðun að það hafi verið hundaheppni ferðarinnar. Stemningin var m-ö-g-n-u-ð; allsstaðar voru hendur á lofti og fólk var gargandi af gleði. Á sviðinu stóðu þrír strákar með sitthvorn mækinn og karókí-skjá fyrir framan sig, takandi Get Low með Lil´Jon & The Eastside Boyz af þvílíkum krafti að annað eins hefur ekki sést (já, ég googlaði þetta, lagið hefur aldrei heitið neitt annað en "to the window, to the wall"-lagið í mínum heimi). Þarna reyndust vera á ferðinni strákarnir úr Karaoke Killed the Cat, karókíkrú sem heldur karókíkvöld eins og karókíkvöld eiga að vera! Þarna steig fólk á svið og umbreyttist í froðufellandi rokkstjörnur og áttu stuðning salsins vísan, sama hvernig fór. Ég hef aldrei upplifað annað eins. Heimasíða þeirra er hér og mæspeísið hér.

Við misstum frá okkur allt vit, földum töskurnar okkar bak við sófa, létum bjórinn okkar frá okkur og þutum út á dansgólfið. Eftir þónokkur lög (og nokkur góð spor) fór Egill heim á hótel en við Magga urðum eftir. Fljótt tókum við eftir stelpu sem okkur fannst við kannast eitthvað við. "Hey! Er þetta Shandi úr America´s Next Top Model?!" Við vildum ekki vera uppáþrengjandi og tala við hana (ofsa kurteisar... eða bara skræfur?) svo við héldum bara áfram að dansa og garga söngtexta meðan við gjóuðum augunum að henni af og til. Kærasti hennar var líka á staðnum, enda einn af Karaoke Killed the Cat gæjunum, og við drógum þá ályktun að þetta væri gæinn sem hún hélt framhjá í þættinum (síðasta sería, þegar þær voru á Ítalíu, látt´ekki eins og þú vitir ekki um hvað ég er að tala!) en áðan komst ég að því, með aðstoð Google, að það var annar gaur. Spennó? Þau tóku Bohemian Rhapsody.

Allt í einu föttuðum við að töskurnar okkar voru horfnar!

Ég man ennþá hvernig mér leið. Innyflin snérust við inni í mér og ég svitnaði við tilhugsunina um glataða myndavél og veski. Svo rann annað upp fyrir mér; passarnir okkar voru í töskunum! Bláu, fallegu passarnir! Orðin fokk og sjitt voru það eina sem komust að í huga mér - hvernig áttum við að komast heim daginn eftir, passa- og skilríkjalausar? Við leituðum út um allt, drógum sófann frá veggnum og vorum næstum farnar að grenja yfir eigin heimsku. Hverjum dettur í hug að láta tösku með veski, myndavél og PASSA frá sér inni á bar í New York?

Magga fór loks og talaði við barþjóninn. Hún skammaði okkur, sagði að svona vitlaus hefði enginn leyfi til að vera, og rétti okkur síðan báðar töskurnar sem einhver hafði látið hana hafa og hún geymt undir barborðinu. Vá hvað okkur var létt! Við tókum á móti skömmum og töskum og hlupum út í sjokki.

Þegar við komum út hlupum við beint í fangið á Shandi, og þá kom að sjálfsögðu ekki annað til greina en að kynna sig (eins og Magga sagði; systir mín hefði drepið mig hefðum við ekki talað við hana!) og segja henni hversu vinsæll þátturinn væri á Íslandi. Hún var ferlega indæl.


Enn í sjokki út af týndu töskunum röltum við stefnulaust um hverfið. Loks settumst við á einhverjar tröppur og drógum upp Lonely Planet bókina og fórum að skoða hvaða skemmtistaði þeir mældu með. Þá gekk ungur maður framhjá okkur og spurði lágt hvort við vildum kók. Ég hváði og hann endurtók spurninguna, aðeins hærra, og þá afþakkaði ég kurteislega. Ef við gerum ráð fyrir að hann hafi ekki verið að selja Coca Cola, þá var þetta í fyrsta skipti sem mér hafa verið boðin eiturlyf.

Kvöldið endaði síðan á spennufalli og hláturskasti í gulum leigubíl á leið heim á hótelið.

Engin ummæli: