föstudagur, nóvember 04, 2005

Fjórði hluti ferðasögunnar. New York, part IV

Ég man ekki hvað við gerðum fyrripart sunnudagsins. Mér þykir líklegt að við höfum sofið út og farið svo í Starbucks til að kaupa morgunmat. Svo tókum við The D Train niður á Coney Island. Það man ég.


Okkar fyrsta verk var að ná í miðana okkar. Þegar við löbbuðum framhjá KeySpan Park leikvanginum sló einhver óþekktur gítarleikari á létta strengi (hoho). Hljóðprufa! Þá rann það fyrst upp fyrir mér - við vorum í raun og veru að fara á White Stripes tónleika! Við. Í raun og veru. White Stripes tónleikar. Í raun og veru!

Meðan við biðum eftir að hleypt yrði inn fórum við á sædýrasafnið. Það var flott safn, með sæotrum og alles. Ég tók næstum 10 myndir af þessum gaur hérna, og bara ein er birtingarhæf. Ég á 9 myndir af sæotrahnakka ef einhver hefur áhuga.


Svo var marglyttu-sýning líka. Hún var afar flott. Ég hef einu sinni orðið fyrir barðinu á marglyttu. Það var við Vesterhavet í Danmörku, afar sársaukafullt, en það er önnur saga og alger útúrdúr. Í sædýrasafninu á Coney Island var krókódílunum litlu gefin músarfóstur að borða. Bjakk.

Á leiðinni aftur að leikvanginum gengum við framhjá risastórum rússíbana og mönuðum hvort annað upp í að fara í hann. Mér hefur alltaf þótt rússíbanar meiriháttar og fílaði þennan alveg í tætlur, en ég verð samt að viðurkenna að á tímabili var ég hrædd um að vagninn myndi ekki haldast á teinunum heldur þeytast af í næstu beygju. Það brakaði mjög mikið í þessu tryllitæki.


Í D lestinni höfðum við verið að grínast með að það gæti verið gaman að vera með skilti á tónleikunum. "Já, hahaha, og skrifa eitthvað svona grúppíu-legt eins og We flew all the way from Iceland to be here!" Þegar fimmtán mínútur voru í opnun leikvangsins horfðum við Magga (með mjög dramatískum hætti) á hvor aðra. "Við VERÐUM að búa til skilti!" Hófst þá mikið kapphlaup við tímann. Strákarnir fóru í röðina en við þutum um bæinn eins og geðsjúklingar, spyrjandi lögreglumenn og vegfarendur hvort þeir vissu hvar við gætum keypt penna og pappa. Ég held grínlaust að við höfum farið í hundrað mismunandi búðir! Að lokum vísaði sjoppueigandi okkur á The 99 Cent Store þar sem við loksins höfðum erindi sem erfiði. Með pappaspjald og pakka af tússpennum hlupum við í hláturskasti aftur að leikvanginum. Vingjarnlegi lögreglumaðurinn gaf okkur "thumbs up!" og brosti út að eyrum.

Þegar við komum inn á leikvanginn sáum við strákana hvergi en ákváðum að koma okkur fyrir á besta stað og hefja skiltagerðina. Hér er útkoman:


Svo bættum við um betur og skrifuðum þessi orð hinumegin á spjaldið:


Er hægt að vera fyndnari?

Egill og Konni höfðu þá séð okkur og voru sestir hjá okkur. Stemningin á leikvanginum var allt öðruvísi en fyrir tónleika í Laugardalshöllinni. Fólk sat bara í rólegheitunum og sötraði bjór og spjallaði sín á milli. Enginn troðningur eða æsingur, bara gleði. Skiltið vakti mikla athygli. Danskur strákur kom askvaðandi og spurði hvort krakkar læri ekki ennþá dönsku á Íslandi. Hann var mjög almennilegur sá, ég get ómögulega munað hvað hann heitir samt. Hann var á bakpokaferðalagi um Bandaríkin og hafði farið á White Stripes tónleikana sem voru kvöldinu áður og líkað svo vel að hann keypti sér miða á þessa líka. Svo ráku Herra og Frú Johnson augun í skiltið okkar. Þau voru gífurlega hrifin af Íslandi og voru mjög áhugasöm um Kjarval-bolinn sem Egill var í. Þeim fannst við æði og klikkað brjáluð að ferðast svona langt fyrir eina tónleika. Sjálf komu þau frá New Jersey. Hann keypti bjór á línuna, oftar en einu sinni, meðan hann blótaði því að ekki væri hægt að fá annað en Budweiser þarna. Þau sögðu okkur frá því að þau ættu 30 ára hjúskaparafmæli á næsta ári og að þá ætluðu þau aðhalda upp á áfangann með trompi. Síðasta stórafmæli hafði verið í september 2001 og þá var stemningin slík að þau gátu ómögulega hugsað sér að halda upp á daginn. Hann vann í tvíburaturnunum og missti vinnuna þegar þeir hrundu. Ég stakk upp á því að þau kæmu til Íslands á næsta ári. "I work for a whale watching company..." (Þetta var í annað skipti sem ég notaði þessa línu, fyrsta skiptið sagði ég þetta við afgreiðslustelpu í Tiffany's, haha). The Johnsons voru mjög hrifin af hugmyndinni, fengu netfangið mitt og sögðust senda mér línu þegar nær drægi. Hér er mynd af Dananum (sem er mjög líkur Gísla Einarssyni, Út og Suður gæjanum) og The Johnsons. Gísli er að þakka pent fyrir bjórinn.

Fyrstur á svið var M. Ward, hann var góður. The Shins voru næstir, þeir voru ágætir líka minnir mig. Ég man bara að söngvarinn/hljómborðsleikarinn sá skiltið okkar og sagði glaður "I see we have some people from Iceland here!" Við trylltumst.

Svo var hlé. Spennan magnaðist. Sviðsmennirnir sem komu fram á sviðið voru sumir klæddir í svört jakkaföt með rauðan klút í brjóstvasanum og einn var líka með hat og rauða fjöður. Tööhööff.


Konni var í dökkbláum bol með japönsku tákni aftan á. Meðan við biðum benti hann á White Stripes bolinn sem ég hafði keypt og hvíslaði "Má ég fá bolinn þinn lánaðan? Ég er orðinn svo meðvitaður um táknið sem ég er með á bakinu. Ég veit ekkert hvað það merkir!" Það var fyndið. Hann fékk bolinn.


Svo kom að því. Jack og Meg White stigu fram á sviðið. GASP! Hann var með polaroid-myndavél og tók sjálfsmyndir villevæk og þeytti þeim út í áhorfendaskarann. Aldrei í átt að okkur samt. Jack var í rauðu og hvítu matadór-átfitti og með kynþokkafulla hattinn sinn. Meg var í rauðum buxum, hvítum bol og með rauðan klút um hálsinn. Sviðið var svart, hljóðfærin ýmist rauð eða svört og svo voru nokkrar hvítar plöntur á víð og dreif.


Ég ætlaði að reyna að leggja setlistann á minnið en það mistókst hrapallega. Ég man þó að opnunarlagið var When I Hear My Name sem er lag af fyrstu plötunni þeirra held ég. Lag númer tvö var Blue Orchid. Svo tóku þau Seven Nation Army rétt fyrir uppklapp og ég hélt að ég yrði ekki eldri. Táraðist og allt! Önnur lög sem ég man eftir er Passive Manipulation sem Meg syngur, The Nurse, The Doorbell og Denial Twist. Þá táraðist ég aftur. Pínu. Og öskraði. Mikið.

Hér er Jack á hnjánum. Að taka gítarsóló. Á hnjánum. Aaahh.


Hér eru nokkrar myndir í viðbót. Ég tók ekki það margar myndir samt, var allt of upptekin við að njóta tónleikanna. Eftir á að hyggja hefði ég átt að taka mun fleiri, það var jú nógu fjandi taugatrekkjandi að smygla vélinni inn.


Sömuleiðis fattaði ég ekki að það væri hægt að taka upp videó á myndavélinni. Það hefði verið b-r-i-l-l-j-a-n-t að eiga eitt slíkt... en það þýðir víst lítið að hugsa um það. Úff.


Ég hef ekki meira að segja um tónleikana. Þeir voru æðislegir. Æðislega æðislegir. Áðan fór ég á www.midi.is og keypti mér miða á tónleikana 20, nóvember í Laugardalshöllinni. Ójá!

Á leiðinni á lestarstöðina mættum við vingjarnlegu löggunni og sýndum honum skiltið. Hann var ofsalega hrifinn og kvaddi okkur með virktum. Coney Island rokkar.

Slúttum þessu á einni sveittri hópsjálfsmynd. Þessi var tekin þegar við vorum að labba út af leikvanginum.

Engin ummæli: